Fjarnám

Efni allra þátta í kennslunni miðast einkum við eftirtaldar þrjár forsendur:

  • Í fyrsta lagi ýmis atriði sem tengjast bifreiðinni sjálfri, s.s leikni í akstri og stjórnun ökutækis.
  • Í öðru lagi umhverfi bifreiðarinnar, s.s. umhverfisvernd, umferðaröryggi, umferðarhegðun og mengun.
  • Þriðja forsendan eru markmið sem tengjast nútíma þjóðfélagi og er þá átt við atriði s.s. skyndihjálp, hagkvæman rekstur ökutækis og efni tengt samhjálp og samábyrgð.

Ökunámið er tvíþætt þ.e. fræðilegt nám og verklegt nám. Ökunámið er þó heilstætt og samþættist þannig að úr verður ein samræmd heild. Mikil áhersla er lögð á samvinnu ökunema við ökukennarann sinn og í samráði við hann skipuleggur ökuneminn námið og fær aðstoð við að leysa öll verkefni.

Fræðilega námið fer fram í ökuskóla og er sá hluti tvískiptur eða Ökuskóli 1 og Ökuskóli 2.  Ökuskólinn Ökunet annast kennslu í þessum tveimur hlutum. Þriðji hlutinn, Ökuskóli 3, er kennsla á sérstöku aksturskennslusvæði.

Ökunet er ökuskóli í fjarnámi

Mögulegt er að stunda fræðilega hluta ökunámsins í staðnámi eða fjarnámi. Ökunet er ökuskóli er annast fræðilegt ökunám í fjarnámi. Það þýðir að nemendur fara í gegnum námið í tölvu en mæta ekki í skólastofu í bókstaflegri merkingu eins og gert er í staðnámi.

Námsefninu er skipt upp í lotur. Samkvæmt reglum um fjarnám ökunáms er gerð krafa um að það líði að minnsta kosti einn sólahringur á milli þess að prófi eftir hverja lotu er lokið. Ef út að því bregður verður nemanda gert aðvart og hann beðinn um að endurtaka próf og virða sólahringstímamörkin sem reglur kveða á um.

Ökuneminn fer í Ö1 fljótlega eftir að verklegt ökunám hefst og lýkur því áður en hann fær  æfingaleyfi. (Hefur þá lokið a.m.k. 10 verklegum ökutímum og 12 fræðilegum kennslustundum (Ö1).

Ökuneminn fer í hluta Ö2 ekki seinna en tveimur mánuðum áður en kemur að afmælisdegi en þá má þreyta bóklegt ökupróf hjá ökunámsdeild Samgöngustofu. (Margir ökunemar hefja þó ökunám seinna eða eftir að 17. ára aldri er náð). Gert er ráð fyrir að ökunemi hafi þá lokið að jafnaði 16 verklegum ökutímum en þó aldrei færri en 14.

Ö3 er þriðji hluti ökunámsins og tekur mið af nýrri ökunámskrá útgefinni í febrúar 2010. Þriðji hlutinn felst í sérhæfðri kennslu í ökugerði. Um er að ræða að minnsta kosti 1 kennslustund í stofu, 2 kennslustundir í forvarnahúsi og 2 kennslustundir í bifreið þar sem sérhæfð þjálfun fer fram í samræmi við kröfur námskrár. (sjá nánar á vefslóðinni http://www.okuskoli3.is/).

Reglur Samgöngustofu kveða á um að ökuneminn þarf að hafa lokið a.m.k. einni verklegri kennslustund hjá ökukennaranum sínum til að mega byrja í ökuskólanum. Fræðilegt og verklegt ökunám er samþætt verk sem helst í hendur allan námstímann.

Þegar öllum lotunum er lokið færðu senda staðfestingu frá ökuskólanum Ökuneti um þátttöku í fræðilegu ökunámi. Staðfestinguna á síðan að líma á bls. 2 í ökunámsbókinni, vinstra megin fyrir ökuskóla 1 og hægra megin fyrir ökuskóla 2 þegar þeim hluta er lokið.

Ökuskóli 1
Ökuskóli 2

Hvað þarf að uppfylla fyrir próf?

Áður en próf fer fram á ökunemi að lágmarki að hafa lokið eftirtöldum kennslustundum og náð þekkingar- og færnimarkmiðum námskrárinnar:

Skriflegt próf

  • Ö1: 12 kennslustundir og Ö2: 12 kennslustundir ef námi í ökugerði er ekki lokið eða
  • Ö1: 12 kennslustundir, Ö2: 10 kennslustundir ásamt kennslu í ökugerði (3 kennslustundir í stofu og 2 kennslustundir í bifreið).
  • 14 ökutímar.
  • Að lágmarki 16 ökutímar ef námi í ökugerði (Ö3) er ekki lokið eða
  • að lágmarki 15 ökutímar ásamt kennslu í ökugerði (3 kennslustundir í stofu og 2 kennslustundir í bifreið).
  • Sérstök athygli er vakin á kröfu um 14 verklegar kennslustundir fyrir skriflegt próf.

Verklegt próf

Afar mismunandi er hversu marga verklega ökutíma nemandinn þarf. Algengur tímafjöldi er á bilinu 19-25 tímar. Námskráin segir að tímafjöldinn eigi að vera að lágmarki 17–25 tímar. Við leggjum áherslu á að gott ökunám er fyrst og fremst ódýr fjárfesting einstaklings í eigin umferðaröryggi og því má ekki fórna fyrir ómerkilegt stolt.