Um Skólann

Ökuskólinn Ökunet var stofnaður í byrjun árs 2013. Skólanum er ætlað að þjónusta nemendur og ökukennara um allt land. Starfsemi skólans miðast við fjarnám og kennslu í gegnum nettengingu. Við rekstur ökuskólans er stuðst við opinn hugbúnað og einfalda tækni sem á að vera auðveld og aðgengileg bæði fyrir ökunema og ökukennara. Ökuskólinn Ökunet hefur vefslóðina www.okunet.is.

Ökuskólinn Ökunet leggur áherslu á samvinnu sem lykilhugtak í starfi sínu. Kennslufræðilegar áherslur ganga m.a. út á að nemendur mótist af samskiptum við aðra og byggi þess vegna þekkingu sína á reynslu. Hver nemandi er í raun órjúfanlegur hluti samfélagsins sem við byggjum og í kennsluaðferðum er lögð áhersla á samræður, samvinnu, samábyrgð og að finna sameiginlega niðurstöðu. Í samræmi við það er aðkoma starfandi ökukennara og foreldra eða forráðamanna ökunema mikilvæg. Leitast er við að koma þessari kennslufræðilegu sýn að eins og kostur er í starfi ökuskólans. Ökukennari hvers ökunema fylgir ökunemanum í gegnum fræðilega námið og tryggir þar með örugga samþættingu við verklega hlutann í samræmi við lög og reglur. Því til viðbótar hafa ökunemar aðgang að fjarkennara sem aðstoðar við fræðilega námið. Góð samvinna allra aðila sem koma að ökunáminu er lykill að árangri.

Rekstraraðilar og aðsetur

Heimilisfang skólans er Grænásbraut 910, 235 Reykjanesbær. Forstöðumaður Ökuskólans Ökunets kt. 580213-0810 er Gréta Björg Ólafsdóttir og kennsluráðgjafi er Sveinn Ingimarsson, báðir starfandi og löggiltir ökukennarar..

Starfsvettvangur

Rekstraraðilar Ökunets hafa mikla reynslu af rekstri ökuskóla og ökunámi til allra ökuréttindaflokka. Ökuskólinn Ökunet leggur fyrst og fremst áherslu á almennt ökunám í starfseminni en í framtíðinni er fyrirhuguð kennsla fyrir alla ökuréttindaflokka. Skólinn leggur mikla áherslu á að eiga gott samstarf við aðra ökuskóla, ökukennara og stofnanir er sinna umferðaröryggismálum, bæði hér heima og erlendis. Ökunet.is hefur það markmiði að stuðla að bættri umferðarmenningu á Íslandi og standa fyrir metnaðarfyllri ökukennslu fyrir alla aldurshópa.

Starfsmenn

Fjöldi ökukennara og annarra sérfræðinga koma að rekstri ökuskólans. Ökuskólinn Ökunet leitast við að fá fagfólk til kennslu og þróunarvinnu til að halda úti námi í hæsta gæðaflokki. Ökuskólinn hefur einnig í hyggju að fá til liðs við sig matsfræðinga til að tryggja faglegt og öflugt gæðamat með starfinu.

Kennsluefni

Ökuskólinn Ökunet er nýr ökuskóli en byggir á traustum grunni með virku samstarfi sínu við Ökuskólann í Mjódd og reynslumikla starfandi ökukennara. Í þessu sambandi má geta þess að Ökuskólinn í Mjódd hefur haldið úti öflugri námsefnisgerð í gegnum árin og myndar þetta efni ásamt námsefni útgefnu af Ökukennarafélagi Íslands, Samgöngustofu, Rauða krossinum á Íslandi og frá tryggingafélögunum, samstæða heild. Á þessum grunni byggir Ökunet sína fræðslu.

Í samræmi við ákvæði námskrár um almennt ökunám er mikil áhersla lögð á tengingu fræðilegs náms og verklegs ökunáms. Stefnt er að sem mestri víxlverkun og samþættingu þarna á milli. Hver ökunemi getur farið inn í ákveðna kennslulotu og farið yfir einstök þekkingaratriði með sínum eigin ökukennara og foreldrum sínum. Hver ökunemi hefur þannig lykilorð sem fylgir honum einum í gegnum námið. Einnig geta umsjónarmenn námsins eða starfsfólk Ökunets fylgst með þátttöku einstakra nemenda og aðstoðað ef þörf er á. Starfsfólk Ökunets og viðkomandi ökukennari hverju sinni munu í sameiningu hafa eftirlit með að reglum sé fylgt og að dreifing námsins sé í samræmi við gildandi reglur Samgöngustofu. Kennslufræðileg nálgun og gæðamat skólans miðar að því að fræðslan sé menntandi til lífstíðar en ekki eingöngu til að ná tilteknu ökuprófi eða verkefni. Samvinna allra aðila er koma að ökunámi er því enn og aftur lykilatriði.

Námsmat

Ökuskólinn Ökunet leggur áherslu á símat í sínu skólastarfi. Kennarar og nemendur leggja í sameiningu mat á árangur skólastarfsins og þau verkefni sem eru unnin. Nemendur vinna sérstök verkefni eftir hverja kennslulotu. Skólapróf eða æfingarpróf eru lögð fyrir í lokin og er ætlað að vera undirbúningur fyrir próf Samgöngustofu. Ætlast er til að nemar ráðfæri sig við ökukennara sinn og foreldra ekki síður en ábyrgðarmenn ökuskólans og leysi einstök verkefni með aðstoð og ráðgjöf þeirra. Bestur árangur næst ef fræðilega námið er unnið samhliða verklegu ökunámi í samræmi við áherslur námskrár.